Leyfi úr fangelsi

Fangelsismálastofnun er heimilt að uppfylltum skilyrðum að veita fanga tímabundið leyfi úr fangelsi. 

Mikilvægt er að sækja um leyfi úr fangelsi með góðum fyrirvara eða að lágmarki 6 vikum fyrir áætlað leyfi.  
Slíkur fyrirvari á ekki við um ófyrirsjáanlega atburði svo sem jarðarfarir eða alvarleg veikindi. Einnig þarf aðeins að hafa slíkan fyrirvara á fyrstu umsókn um dags- og fjölskylduleyfi. 

Allar umsóknir berast skriflega til forstöðumanns fangelsis.

Skammtímaleyfi


Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga skammtímaleyfi til dvalar utan fangelsis í þeim tilgangi:

  • Að heimsækja náinn ættingja eða annan nákominn í fjölskyldu fanga sem er alvarlega sjúkur.
  • Að vera viðstaddur jarðarför eða kistulagningu náins ættingja eða annars nákomins fjölskyldumeðlims fanga. Þó getur fangi verið viðstaddur bæði kistulagningu og jarðarför maka, niðja, foreldra, systkina, afa og ömmu, langömmu og langafa.
  • Að vera viðstaddur fæðingu, skírn eða fermingu barns síns.
  • Að gæta sérstaklega brýnna persónulegra hagsmuna sinna.

Með nánum ættingja og öðrum nákomnum í fjölskyldu fanga er átt við: Maka, sambúðarmaka, niðja, stjúpbörn, fósturbörn, foreldra, stjúpforeldra, fósturforeldra, tengdaforeldra, systkin, systkinabörn, föður- og móðurforeldra, langömmu og langafa og föður- og móðursystkin. 

Hvernig sæki ég um?

Sótt er um skammtímaleyfi til forstöðumanns fangelsis. Liggja þurfa fyrir fullnægjandi gögn um þar til greindar aðstæður til að hægt sé að taka ákvörðun um skammtímaleyfi.  

Hversu langt er skammtímaleyfi?

Leyfið skal vera átta klukkustundir að hámarki. Lengja má þann tíma þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem þegar um langan veg er að fara. Þó skulu skammtímaleyfi aldrei vera lengri en nauðsyn krefur. 

Skilyrði í skammtímaleyfi

Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu.


Dagsleyfi


Heimilt er að veita langtímafanga reglubundin dagsleyfi. Leyfi kemur fyrst til skoðunar þegar fangi hefur samfellt afplánað þriðjung refsitímans í fangelsi, þó ekki skemur en eitt ár. Hafi fangi verið samfellt fjögur ár í fangelsi er heimilt að veita honum slíkt leyfi þótt þriðjungur sé ekki liðinn.

Hvernig sæki ég um?

Fangi skal að jafnaði sækja um dags- og fjölskylduleyfi sex vikum áður en hann óskar eftir fyrsta leyfinu. Umsóknareyðublað er hægt að fá hjá fangavörðum. Í umsókninni þarf að tilgreina nákvæmlega hvar fangi ætlar að eyða dagsleyfinu og hverja hann mun umgangast í dagsleyfinu. 

Hversu langt er dagsleyfi?

Dagsleyfi er 14 klst. að hámarki. Að jafnaði veitt á tímabilinu frá 7:00- 22:00. Heimilt er að lengja tíma dagleyfis ef fangi á sannarlega um langan veg að fara heim til sín. 

Hversu oft eru dagsleyfi?

Dagsleyfi mega vera mest 12 á ári og þurfa að líða a.m.k. 30 dagar á milli dagsleyfa.

Hvaða þættir hafa áhrif á dagsleyfi?

Fangelsismálastofnun lítur til eftirfarandi þátta við ákvörðun um dagsleyfi

  • Afbrot, saka- og afplánunarferill fanga.
  • Hegðun í fangelsi, fangi þarf að vera agabrotalaus í 6 mánuði.
  • Hvort fangi hefur nýtt sér meðferðarúrræði sem til boða hafa verið í fangelsinu.
  • Ákveðnir brotaflokkar eru þess eðlis að sett eru sérstök skilyrði fyrir dagsleyfinu. 
  • A.m.k. tvö ár þurfa að hafa liðið frá stroki úr fangelsi.
  • Dagskrá fanga í dagsleyfi.

Hafi fangi framið refsiverðan verknað í fyrra dags- eða fjölskylduleyfi eða að öðru leyti misnotað slíkt leyfi skal leyfi ekki veitt fyrr en a.m.k. átta mánuðum frá slíku atviki. 

Skilyrði í dagsleyfi

Fangelsismálastofnun í samráði við fangelsið setur fanga skilyrði í dagsleyfi. Skilyrðin eru metin út frá brotaflokki, áhættumati (ef við á) og hegðunar fanga í afplánun. Athuga skal að hvert tilvik er sérstaklega metið og eiga ekki öll skilyrðin við um alla sem fara í dagsleyfi. 

Dæmi um skilyrði í dagsleyfi

  • Nota hvorki áfengi né vímuefni. 
  • Hringja tvisvar yfir daginn í fangelsið og láta vita af sér.
  • Vera í fylgd fangavarða.
  • Styttri tími dagsleyfis, t.d. 8 klst. í stað 14 klst. 
  • Hvorki umgangast né setja sig í samband við  brotaþola.
  • Umgangast ekki börn.
  • Umgangast ekki staði þar sem börn stunda tómstundir.
  • Að fara ekki á ákveðin svæði t.d. ákveðið bæjarfélag.

Fjölskylduleyfi


Ef fanga hefur verið veitt dagsleyfi samfellt í tvö ár er heimilt að veita honum allt að 48 klukkustunda fjölskylduleyfi.

Fjölskylduleyfi eru mest fjögur á ári og þurfa að líða að lágmarki 90 dagar á milli fjölskylduleyfa.
Fangelsismálastofnun getur sett skilyrði um eftirlit í fjölskylduleyfum og skal fangi jafnframt tilkynna sig reglulega til fangelsis. 

Sótt er um fjölskylduleyfi til forstöðumanns með nákvæmri dagskrá fjölskylduleyfis.


Vinna og/eða nám utan fangelsis


Heimilt er að veita langtímafanga leyfi til að stunda nám, vinnu, starfsþjálfun eða verkmenntun utan fangelsis í allt að 12 mánuði í lok afplánunar í fangelsi.  Slíkt leyfi er ekki veitt fyrr en fangi hefur verið samfellt í fimm ár í fangelsi.

Fangi verður að hafa verið agabrotalaus í að lágmarki 6 mánuði. 

Mikilvægt er að sækja um heimild til vinnu eða náms með góðum fyrirvara eða sex vikum áður. Sótt er um heimild til vinnu eða náms til forstöðumanns fangelsis.

Hlé á afplánun


Meginreglan er sú að afplánun sé samfelld. Gera má hlé á afplánun ef mjög sérstakar ástæður mæla með því, svo sem mjög alvarleg veikindi fanga. Ef hlé er gert á afplánun er það bundið skilyrði um að aðili brjóti ekki af sér á meðan. Einnig má setja frekari skilyrði fyrir hléi á afplánun, svo sem að aðili umgangist ekki ákveðna menn, t.d. brotaþola sína eða að hann hafi á sér sérstakan búnað (ökklaband) svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans.

Sótt er um hlé á afplánun til forstöðumanns, mikilvægt er að öll nauðsynleg fylgigögn séu með umsókn.