Agaviðurlög o.fl.

Samkvæmt 73. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, er heimilt að beita fanga agaviðurlögum fyrir brot á lögum um fullnustu refsinga, reglugerðum og reglum sem settar eru grundvelli þeirra og kveða á um skyldur fanga, enda komi fram að brot á þeim varði agaviðurlögum.

Agaviðurlögin eru eftirtalin:

 1. Skrifleg áminning.
 1. Svipting helmings þóknunar fyrir ástundun vinnu og náms um ákveðinn tíma.
 1. Svipting aukabúnaðar sem sérstakt leyfi þarf fyrir og takmörkun heimsókna, símtala og bréfaskipta um ákveðinn tíma.
 1. Flutningur úr opnu fangelsi yfir í lokað fangelsi.
 1. Takmarkanir á útivist og aðstöðu til íþróttaiðkunar um ákveðinn tíma.
 2. Einangrun í allt að 15 daga.

Aðeins er heimilt að beita einangrun sem agaviðurlögum vegna eftirfarandi brota eða tilrauna til brota:

 1. Stroks.
 2. Smygls í fangelsi, vörslu eða neyslu áfengis, ólöglegra lyfja eða fíkniefna og vörslu vopna eða annarra skaðlegra hluta.
 3. Ofbeldis eða hótunar um ofbeldi gagnvart öðrum föngum eða starfsmönnum fangelsis.
 4. Grófra skemmdarverka.
 5. Annarra grófra eða endurtekinna minni háttar brota.

Ef brot er smávægilegt og fangi hefur ekki áður framið agabrot þá má eingöngu beita skriflegri áminningu.

Heimilt er að beita fleiri en einni tegund agaviðurlaga samtímis.

Forstöðumaður viðkomandi fangelsis ákveður viðurlög hverju sinni en áður en ákvörðun um agaviðurlög er tekin skulu málsatvik rannsökuð og skal fanga gefinn kostur á að að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma sjónarmiðum sínum um þau á framfæri.

Ákvörðun um agaviðurlög skal rökstudd, bókuð og birt fanga í viðurvist vitna. Við birtingu ákvörðunar skal skýra fanga frá kæruleið. 

__________________________________________________________________________________________________________

Í fyrirspurnartíma á 133. löggjafarþingi bar alþingismaðurinn Guðjón Ólafur Jónsson fram fyrirspurn um fjölda og tilefni agaviðurlaga í fangelsum. Hér getur að líta svar Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, við fyrirspurninni.
__________________________________________________________________________________________________________

Aðskilnaður

Samkvæmt 75. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, er heimilt að aðskilja fanga frá öðrum föngum þegar það er nauðsynlegt:

 1. Af öryggisástæðum.
 2. Vegna yfirvofandi hættu sem lífi eða heilbrigði hans er búin.
 3. Vegna hættu á að fangi valdi meiri háttar spjöllum á eignum fangelsis.
 4. Til að koma í veg fyrir strok.
 5. Til að koma í veg fyrir að fangi hvetji aðra til að brjóta reglur fangelsis.
 6. Til að hindra að fangi taki þátt í að útvega sér eða öðrum áfengi, önnur vímuefni eða lyf.
 7. Til að afstýra að hann beiti aðra fanga yfirgangi.

Aðskilnaður skal ekki standa lengur en nauðsyn krefur og aldrei lengur en 24 tíma.

Ákvörðun um tímabundinn aðskilnað skal rökstudd og bókuð. Slík ákvörðun sætir ekki kæru. Við birtingu ákvörðunar skal skýra fanga frá kæruleið.

 

Vistun í öryggisklefa

Samkvæmt 76. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, má forstöðumaður vista fanga í öryggisklefa ef nauðsyn krefur til að koma í veg fyrir ofbeldi, hemja ofbeldisfullan mótþróa hans eða hindra að hann skaði sjálfan sig eða aðra.

Þegar fangi er vistaður í öryggisklefa má nota belti, hanska og fót- og handreimar.

Vistun í öryggisklefa og aðrar aðgerðir sem beitt er í tengslum við hana skulu aldrei standa lengur en samræmist tilgangi vistunar og beitingu annarra aðgerða.

Ákvörðun um vistun í öryggisklefa skal rökstudd og bókuð. Þá skal ákvörðunin birt fanganum í viðurvist vitnis þegar aðstæður leyfa. Við birtingu ákvörðunar skal skýra fanga frá kæruleið.
                

Senda grein