Leyfi úr refsivist


Reglubundin dagsleyfi

Í 59. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 segir:

Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga sem afplánar refsingu reglubundin dagsleyfi til dvalar utan fangelsis ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að ljúka afplánun. Slíkt leyfi skal vera 14 klukkustundir að hámarki og skal að jafnaði veitt frá kl. 7 að morgni til kl. 22 að kvöldi sama dags. Heimilt er að lengja leyfið ef fangi á sannanlega um langan veg að fara til heimilis síns.

Í beiðni um leyfi skal fangi upplýsa hvernig hann hyggst verja leyfinu eða hvern hann hyggst heimsækja. Áður en leyfi er veitt er heimilt að leita staðfestingar hjá viðkomandi á því að heimsókn geti átt sér stað.

Leyfi samkvæmt þessari grein kemur fyrst til skoðunar þegar fangi hefur samfellt afplánað þriðjung refsitímans í fangelsi, þó ekki skemmri tíma en eitt ár. Þegar fangi hefur verið samfellt í fjögur ár í fangelsi er heimilt að veita honum slíkt leyfi þótt þriðjungur refsitímans sé ekki liðinn.

Dagsleyfi úr fangelsi mega mest vera 12 á ári og veita má leyfi að nýju ef liðnir eru 30 dagar frá síðasta leyfi.

Nú fer afplánun fram utan fangelsis skv. 31. gr. og er þá heimilt að setja það skilyrði að fanga skuli ekki veitt dagsleyfi samkvæmt þessari grein.

Fjölskylduleyfi

Í 3. mgr. 59. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 segir að hafi fanga verið veitt dagsleyfi á samfelldu tveggja ára tímabili og hann staðist skilyrði þeirra sé heimilt að veita honum allt að 48 klukkustunda fjölskylduleyfi ef slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að ljúka afplánun. Slíkt leyfi skal að jafnaði vera frá kl. 12 á hádegi til kl. 12 á hádegi.

Í beiðni um leyfi skal fangi upplýsa hvernig hann hyggst verja leyfinu, hvern hann hyggst heimsækja og hvar hann mun dveljast. Áður en leyfi er veitt er heimilt að leita staðfestingar hjá viðkomandi á því að af heimsókn geti orðið.

Nú fer afplánun fram utan fangelsis skv. 31. gr. og er þá heimilt að setja það skilyrði að fanga skuli ekki veitt fjölskylduleyfi samkvæmt þessari grein.

Í 2. mgr. 60. gr. laganna segir að hafi fangi strokið úr afplánun eða gæsluvarðhaldi skuli líða að minnsta kosti tvö ár þar til unnt er að veita fanga leyfi. Hafi fangi framið refsiverðan verknað í fyrra dags- eða fjölskylduleyfi eða að öðru leyti misnotað slíkt leyfi skal leyfi ekki veitt fyrr en að minnsta kosti átta mánuðir eru liðnir frá slíku atviki. Nú verður fangi uppvís að neyslu áfengis eða ávana- og fíkniefna eða hann hefur framið agabrot í fangelsi eða utan þess og kemur þá leyfi til dvalar utan fangelsis ekki til greina fyrr en að sex mánuðum liðnum frá slíku atviki.

Skammtímaleyfi

Í 61. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 segir:

Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga skammtímaleyfi til dvalar utan fangelsis í þeim tilgangi:

  1. Að heimsækja náinn ættingja eða annan nákominn í fjölskyldu fanga sem er alvarlega sjúkur að fengnu samþykki viðkomandi eða hans nánasta aðstandanda.
  2. Að vera viðstaddur jarðarför eða kistulagningu náins ættingja eða annars nákomins í fjölskyldu fanga. Þó getur fangi verið viðstaddur bæði kistulagningu og jarðarför maka síns, niðja, foreldra, systkina, afa og ömmu, langömmu og langafa.
  3. Að vera viðstaddur fæðingu, skírn eða fermingu barns síns.
  4. Að gæta sérstaklega brýnna persónulegra hagsmuna sinna.

Ekki skal veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. nema fyrir liggi fullnægjandi gögn um þar til greindar aðstæður. Slíkt leyfi skal vera átta klukkustundir að hámarki. Lengja má þann tíma þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem þegar um langan veg er að fara. Þó skulu skammtímaleyfi aldrei vera lengri en nauðsyn krefur. Liggi samþykki hlutaðeigandi fyrir komu fangans ekki fyrir skal synja um leyfið.

Með nánum ættingja og öðrum nákomnum í fjölskyldu fanga í 1. og 2. tölul. 1. mgr. er átt við maka, sambúðarmaka, niðja, stjúpbörn, fósturbörn, foreldra, stjúpforeldra, fósturforeldra, tengdaforeldra, systkin, systkinabörn, föður- og móðurforeldra, langömmu og langafa og og föður- og móðursystkin.

Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu.

Nám, starfsþjálfun eða verkmenntun utan fangelsis

Í 62. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 segir:

Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga sem afplánar refsingu leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda nám, starfsþjálfun eða verkmenntun í allt að 12 mánuði í lok afplánunar í fangelsi ef það telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að afplánun ljúki. Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu. Slíkt leyfi er ekki veitt fyrr en fangi hefur verið samfellt í fimm ár í fangelsi.
Áður en leyfi til dvalar utan fangelsis skv. 1. mgr. er veitt skal liggja fyrir staðfest stundaskrá og skrifleg staðfesting skóla eða þess sem veitir starfsþjálfun um að fangi geti hafið og stundað nám, starfsþjálfun eða verkmenntun þann tíma sem fyrirhugað er að leyfið gildi. Þá skal gengið úr skugga um að þessum aðilum sé ljóst að um fanga sé að ræða sem afpláni refsingu og þeim gerð grein fyrir reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.

Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu.

Vinna utan fangelsis

Í 63. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 segir:

Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga sem afplánar refsingu leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda vinnu í allt að 12 mánuði í lok afplánunar í fangelsi ef það telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að afplánun ljúki. Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu. Slíkt leyfi er ekki veitt fyrr en fangi hefur verið samfellt í fimm ár í fangelsi.
Áður en leyfi til dvalar utan fangelsis skv. 1. mgr. er veitt skal liggja fyrir skrifleg staðfesting vinnuveitanda um að fangi geti hafið störf þann tíma sem fyrirhugað er að leyfið gildi. Þá skal gengið úr skugga um að vinnuveitanda sé ljóst að um fanga sé að ræða sem afpláni refsingu og þeim gerð grein fyrir reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.

Senda grein