Fangelsið Kópavogsbraut 17 (lokað)

Síðasti fanginn var fluttur úr fangelsinu 22. maí 2015.

Fangelsið Kópavogsbraut 17, 200 Kópavogi (lokað)

Sími:

Netfang:

Fangelsið Kópavogsbraut 17Fangelsið Kópavogsbraut 17 var opnað í apríl árið 1989. Þar var áður starfrækt unglingaheimili ríkisins. Í fangelsinu eru allir kvenfangar vistaðir, en þar eru líka vistaðir karlfangar. Fangelsið getur vistað 12 fanga ef allir klefar eru nýttir. Hér á landi er hlutfall kvenna sem lendir í fangelsi það lágt að konur hafa flestar verið 10 í einu í fangelsinu hingað til. Oft eru þar aðeins 4-5 konur samtímis og á árum áður gat sú tala farið niður í 2-3 konur. Ákvörðun var því tekin snemma um að vista karlmenn einnig í fangelsinu og er því skipt niður í tvær deildir eða ganga, karlagang og kvennagang. Sú regla gildir í fangelsinu, að konur mega ekki vera inni á klefum karla og öfugt. Reynt er að velja í fangelsið fremur rólega karlfanga, með styttri dóma að jafnaði, menn sem geta unnið og hafa ekki brotið af sér með ofbeldi gagnvart konum eða börnum. Segja má að í Fangelsinu Kópavogsbraut sé viðunandi aðstaða fyrir fanga, sem afplána styttri fangelsisdóma og vararefsingu, en aðstaða þar fyrir konur, sem afplána margra ára refsivist er ekki viðunandi. Hvað tómstundir varðar þá er þokkaleg líkamsræktaraðstaða er í fangelsinu en garður fyrir útivist er of lítill. Að öðru leyti felst afþreying fanga mest í tölvunotkun, sjónvarpsáhorfi og ýmiss konar tómstundum sem hægt er að koma við inni á klefum svo sem handavinnu, málun o.fl.

Starfsmenn: Í Fangelsinu Kópavogsbraut starfa samtals 6 fangaverðir á sólarhringsvöktum, og 2 varðstjórar sem eingöngu ganga dagvaktir. Vaktirnar eu 12 klukkustundir, ýmist næturvaktir frá 20:00-08:00 eða dagvaktir frá 08:00-20:00. Þá starfar ræstitæknir í hlutastarfi við fangelsið, auk þess sem læknar og hjúkrunarfræðingur sinna vitjunum og viðtölum skv. samningi við heilbrigðisráðuneyti. Forstöðumaður fangelsisins er Guðmundur Gíslason.  Hefur hann aðsetur í Hegningarhúsinu, Skólavörðustíg.

Vinna fanga: Í fangelsinu er allgóð vinnuaðstaða í kjallara fyrir smærri verkefni sem unnin eru á frjálsum markaði.  Í fangelsinu eru aðallega unnin létt störf við ýmiss konar samsetningar og pakkanir á vörum fyrir samtök og fyrirtæki á frjálsum markaði. Einnig er rekið þvottahús í fangelsinu þar sem þvottur er þveginn fyrir nokkra aðila svo sem fangelsismálastofnun og lögregluna, auk þess sem til fellur í fangelsinu sjálfu. Einn fangi hefur auk þess umsjón með þrifum í fangahluta hússins. 

Nám fanga:  Föngum gefst kostur á að stunda nám í fangelsinu á vegum Menntaskólans í Kópavogi.  Koma kennarar þaðan til að kenna.

Samkvæmt reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961/2005 skal Fangelsismálastofnun setja gjaldskrá um þóknun fyrir vinnu og nám, upphæð dagpeninga fanga og greiðslufyrirkomulag. Þóknun fyrir hverja klukkustund fer eftir eðli starfs. Fangi í námi skal fá þóknun fyrir hverja kennslustund, en þó ekki fyrir fleiri kennslustundir en fimm á dag. Þóknun og dagpeningar skulu greiddir eftir á og að lágmarki á tveggja vikna fresti, oftast fer þó greiðsla fram vikulega. Gjaldskráin skal endurskoðuð árlega.

Símatímar:  Fangar í Fangelsinu Kópavogsbraut 17 hafa aðgang að kortasíma til úthringinga að undanskildum þeim tíma sem vinna eða nám er í gangi.  Símakort fást keypt í fangelsinu.  Tekið er á móti símhringingum til fanga á mánudögum, miðvikudögum og laugardögum frá kl. 18:00 - 21:30. Lögfræðingar, lögregla og aðrir opinberir aðilar geta haft samband utan þessa tíma. Fangar geta hringt í opinbera aðila í samræmi við 36. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 sbr. reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961/2005.

Heimsóknir:  Heimsóknir nánustu vandamanna eru leyfðar einu sinni í viku í 2 klst. í senn.  Fjöldi gesta hverju sinni er að hámarki 3.  Fangi getur sótt um heimsóknarleyfi fyrir aðra aðila en nánustu vandamenn á þar til gerðu eyðublaði í fangelsinu og eru þær háðar samþykki yfirmanna fangelsisins.  Fangi getur auk þess sótt um fleiri heimsóknir í viku á sama hátt.  Heimsókn fer fram í sérstöku heimsóknarherbergi. 

Barn með móður í fangelsi:  Í 23. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 segir að eigi kona ungbarn við upphaf afplánunar, eða fæði hún barn í afplánun, megi heimila henni í samráði við barnaverndarnefnd að hafa það hjá sér í fangelsi. Hefur slíkt í nokkur skipti verið heimilað í Fangelsinu Kópavogsbraut 17 og yfirleitt reynst vel. 

Útivera og tómstundir: Samkvæmt 39. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 á fangi rétt á útiveru og að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir í frítíma eftir því sem aðstæður í fangelsi leyfa í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi. Útivistartíma er yfirleitt skipt í tvennt, þ.e. fyrir hádegi og eftir hádegi. Taka ber fram að útivistartími fanga er að jafnaði lengri en lágmarksviðmið segir til um, sérstaklega á góðviðrisdögum, en varðstjóri getur heimilað lengingu útivistartíma.

Senda grein