Fangelsið Litla-Hrauni

Litla-Hraun

Fangelsið Litla-Hrauni, 820 Eyrarbakka

Sími: 480-9000 / Fax: 480-9001

Netfang: VardstjoriLH@fangelsi.is

Fangelsið Litla-HrauniFangelsið Litla-Hrauni var stofnað 8. mars 1929 og er gæsluvarðhalds- og afplánunarfangelsi. Starfsemi fangelsisins fer fram í 9 byggingum, sem einfaldlega nefnast Hús 1, Hús 2 o. s.frv. Sjá myndir af húsakosti Fangelsisins Litla-Hrauni.

Hús 1 var tekið í notkun 1980 sem einangrunardeild og frá 1996 er það einnig notað fyrir gæsluvarðhald. Hús 2, sem er fyrsta byggingin á staðnum var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins í hinum íslenska burstabæjarstíl og átti upphaflega að vera sjúkrahús en það koma ekki til þess. Í Húsi 2 er aðstaða lækna og hjúkrunarfræðinga og þar er jafnframt heimsóknardeild með 12 herbergjum. Hús 3 var tekið í notkun árið 1972 með 22 klefum og endurnýjað á árinu 1999. Hús 4 var tekið í notkun árið 1995. Þar eru 5 álmur með 11 klefum hver. Í öðrum byggingum eru skrifstofur, verkstæði og önnur starfsemi. Til afþreyingar er í fangelsinu líkamsræktaraðstaða, bókasafn, fönduraðstaða og billiardborð. Á lóð eru fótboltavöllur, göngubraut og körfuboltaaðstaða.

Starfsmenn: Fastir starfsmenn fangelsisins eru 55. Vaktir ganga 30 fangaverðir, 16 fangaverðir sjá um verkstjórn, heimsókn, eftirlit, vöru- og fangaflutninga. Á skrifstofu fangelsisins starfa auk forstöðumanns, Halldórs Vals Pálssonar, 4 deildarstjórar og 1 fulltrúi.

Vinna fanga: Helstu verkefni eru vörubrettasmíði, hellusteypa, þrif, þvottahús, skrúfbútaframleiðsla, skjalaöskjuframleiðsla, bílnúmera- og skiltagerð, samsetning í járn- og trésmíði og bón og þvottur bíla. Nánari upplýsingar og myndir af framleiðsluvörum.

Nám: Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur umsjón með skólahaldi fanga í fangelsinu, námsframboð er sambærilegt við það sem tíðkast í fjölbrautaskólum.

Samkvæmt reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961/2005 skal Fangelsismálastofnun setja gjaldskrá um þóknun fyrir vinnu og nám, upphæð dagpeninga fanga og greiðslufyrirkomulag. Þóknun fyrir hverja klukkustund fer eftir eðli starfs. Fangi í námi skal fá þóknun fyrir hverja kennslustund, en þó ekki fyrir fleiri kennslustundir en fimm á dag. Þóknun og dagpeningar skulu greiddir eftir á og að lágmarki á tveggja vikna fresti. Gjaldskráin skal endurskoðuð árlega.

Símatímar: Símatímar út eru frá kl. 08:00 til kl. 21:30 alla daga. Innhringingar til fanga eru ekki leyfðar en tekin eru skilaboð á símsvara sem lesið er af 4 sinnum á dag. Þá getur fangi notað síma til að ná í opinbera aðila í samræmi við 49. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016.

Heimsóknir: Samkvæmt 45. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 getur fangi fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans. Fangi getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu eigi sjaldnar en vikulega en heimsóknir frá vinum skulu ekki vera fleiri en tvær í mánuði nema í sérstökum tilvikum. Heimsókn fer fram í sérstöku heimsóknarherbergi.  

Fangi getur fengið eina heimsókn á viku frá nánustu vandamönnum. Þá getur fangi sótt um heimsóknarleyfi fyrir aðra aðila og er það háð samþykki yfirmanna fangelsisins. Fangi þarf að panta tíma fyrir heimsóknir skriflega á þar til gerð eyðublöð. Heimsóknir fara fram milli kl. 13:00 og 16:00 þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga. Heimsóknir á laugardögum og sunnudögum fara fram milli kl. 12:30 og 15:00. Vakin er athygli á því að gestum er ekki hleypt inn eftir kl. 14:00 á virkum dögum og kl. 13:15 um helgar. Heimsókn fer fram í sérstöku heimsóknarherbergi í Húsi-2.

Útivera og tómstundir: Samkvæmt 52. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 á fangi rétt á útiveru og að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir í frítíma eftir því sem aðstæður í fangelsi leyfa í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi. Útivistartímar eru alla daga á hinum ýmsu tímum sem auglýstir eru á deildum fangelsisins. Hver fangi hefur heimild til þess að fara einu sinni út í hverjum útivistartíma.

Upplýsingar til fanga við komu í Fangelsið Litla-Hrauni: Við komu í Fangelsið Litla-Hrauni fá fangar afhentan bækling þar sem nánar er fjallað um ofangreind atriði ásamt upplýsingum um hvað framundan er, hvaða búnaður og þjónusta eru til staðar og hvaða eigin búnað hafa megi, húsreglum fangelsisins, sýnishorni af eyðublöðum o.fl. Sjá bækling.

Senda grein