Hegningarhúsið (lokað)

Hegningarhúsinu var lokað 1. júní 2016 eftir 142 ára starfsemi.

Hegningarhúsið, Skólavörðustíg 9, 101 Reykjavík (lokað)

Sími: 

Netfang:

Hegningarhúsið

Hegningarhúsið var tekið í notkun árið 1874 og er elsta fangelsið á landinu. Í húsakynnum fangelsisins er erfitt að koma fyrir ýmsu því sem í dag þykir tilheyra nútíma fangelsisrekstri. Þar er engin vinnuaðstaða fyrir fanga, enginn matsalur, fábreytileg íþróttaaðstaða og nánast engin tómstunda- eða sameiginleg aðstaða. Allstór útivistargarður er norðanmegin við fangelsið og er hann mikið notaður. Segja má að afþreying fanga í fangelsum beinist mest að tölvunotkun og sjónvarpsáhorfi inni á klefum. Erfitt er að gera breytingar á húsinu, enda er stór hluti þess friðaður af Húsafriðunarnefnd ríkisins. Í Hegningarhúsinu er enn til staðar gamla Bæjarþingstofan í Reykjavík og fyrr á árum, kringum 1920, hafði Hæstiréttur aðsetur í fangelsinu þar sem nú eru skrifstofur á efri hæðinni. Áður fyrr var pláss fyrir mun fleiri fanga í húsinu enda voru sumir klefanna fyrir allt að fjóra fanga í senn. Núna eru fangarýmin samtals 16, þar af eru 5 tveggja manna klefar og tveir einangrunarklefar sem m.a. eru notaðir ef gæsluvarðhaldsfangar eru úrskurðaðir í einangrun í stuttan tíma. Hegningarhúsið er í dag aðallega notað sem móttökufangelsi fyrir fanga sem eru að hefja afplánun fangelsisrefsingar. Flestir fangar dvelja skamman tíma í Hegningarhúsinu, fara í læknisskoðun og í viðtal við starfsmann Fangelsismálastofnunar og eru síðan sendir í það fangelsi sem þeir eiga að afplána refsingu sína í samkvæmt ákvörðun Fangelsismálastofnunar. Fangar með mjög stutta dóma afplána í Hegningarhúsinu.

Starfsmenn: Í fangelsinu starfa 10 fangaverðir. Þá hafa tveir fangaflutningsmenn aðstöðu í húsinu og þar er einnig skrifstofa fangelsa á höfuðborgarsvæðinu þar sem vinnuaðstaða forstöðumanns, Guðmundar Gíslasonar, er til húsa, ásamt fulltrúa á skrifstofu, en sami forstöðumaður hefur umsjón með Hegningarhúsinu, Fangelsinu Kópavogsbraut 17 og Fangelsinu Akureyri. Í Hegningarhúsinu er læknastofa þar sem læknar og hjúkrunarfólk koma og sinna föngum.

Vinna fanga: Engin föst fangavinna er í Hegningarhúsinu utan þess að einn fangi hefur umsjón með þrifum ganga og salerna í fangahluta og annar hefur umsjón með matarbökkum, kaffiaðstöðu og öðru því sem snertir mat og kaffi fanga.  Önnur tilfallandi störf tengjast viðhaldsverkefnum innandyra og snyrtingu útivistarsvæðis, s.s. málningarvinnu á klefum, garðslætti ofl. 

Samkvæmt reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961/2005 skal Fangelsismálastofnun setja gjaldskrá um þóknun fyrir vinnu og nám, upphæð dagpeninga fanga og greiðslufyrirkomulag. Þóknun fyrir hverja klukkustund fer eftir eðli starfs. Fangi í námi skal fá þóknun fyrir hverja kennslustund, en þó ekki fyrir fleiri kennslustundir en fimm á dag. Þóknun og dagpeningar skulu greiddir eftir á og að lágmarki á tveggja vikna fresti. Gjaldskráin skal endurskoðuð árlega.

Símatímar:  Kortasími er fyrir fanga í Hegningarhúsinu og hafa þeir aðgang að símanum meðan klefar eru opnir.  Símakort fást keypt í fangelsinu.  Fangi má taka við þremur símtölum í viku (innhringing) og nota síma til að ná í opinbera aðila í samræmi við 49. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016.

Heimsóknir:  Samkvæmt 45. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 getur fangi fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans. Fangi getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu eigi sjaldnar en vikulega en heimsóknir frá vinum skulu ekki vera fleiri en tvær í mánuði nema í sérstökum tilvikum. Heimsókn fer fram í sérstöku heimsóknarherbergi.  

Heimsóknir nánustu vandamanna eru leyfðar einu sinni í viku í 2 klst. í senn.  Fjöldi gesta hverju sinni er að hámarki 3.  Fangi getur sótt um heimsóknarleyfi fyrir aðra aðila en nánustu vandamenn á þar til gerðu eyðublaði í fangelsinu og eru þær háðar samþykki yfirmanna fangelsisins.  Fangi getur auk þess sótt um fleiri heimsóknir í viku á sama hátt. 

Útivera og tómstundir:  Samkvæmt 52. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 á fangi rétt á útiveru og að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir í frítíma eftir því sem aðstæður í fangelsi leyfa í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi. Útivistartímar í Hegningarhúsinu eru alla daga frá kl. 9:30-10:00 og 16:00-16:30.  Taka ber fram að útivistartími fanga er að jafnaði lengri en lágmarksviðmið segir til um, sérstaklega á góðviðrisdögum,  en varðstjóri getur heimilað lengingu útivistartíma.

Senda grein