Fangelsisrefsing skilorðsbundin

Ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið og skilorðsbundin fangelsisrefsing

Hegningar samkvæmt 31. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eru fangelsi og fésektir

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga má ákveða í dómi að fresta skuli með skilyrðum um tiltekinn tíma:

  1. Ákvörðun um refsingu.
  2. Fullnustu refsingar.

Skilorðstími er frá 1 ári til 5 ára. Að jafnaði skal ákveða hann 2-3 ár. Upphaf skilorðstíma er ákveðið í dómi hverju sinni.

Skilyrðin sem um er að ræða eru tvískipt. Annars vegar eru almenn skilyrði og hins vegar sérskilyrði.Almenn skilyrði

Í öllum tilvikum skal frestun vera bundin því skilyrði að viðkomandi aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á skilorðstímanum. Þetta skilyrði er óundanþægt og á við allan skilorðstímann.

Sérskilyrði

Samkvæmt 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga binda frestun á ákvörðun refsingar eða skilorðsbindingu fangelsisrefsingar eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að aðili sæti á skilorðstímanum umsjón einstakra manna, félags eða stofnunar. Aðili skal jafnan sæta slíkri umsjón, ef honum eru sett skilyrði samkvæmt 2.–5. tölul. hér á eftir.
  2. Að aðili hlíti fyrirmælum umsjónarmanns um dvalarstaði, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og notkun tómstunda.
  3. Að aðili neyti ekki á skilorðstímanum áfengis né deyfilyfja.
  4. Að aðili gangist undir dvöl á hæli tiltekinn tíma, ef nauðsyn þykir til bera, allt að 18 mánuðum, er venja þarf hann af notkun áfengis eða deyfilyfja, en ella allt að 1 ári.
  5. Að aðili gangist undir að þola takmarkanir á umráðum yfir tekjum sínum eða öðru, er fjárhag hans varðar.
  6. Að aðili greiði eftir getu fébætur fyrir tjón, sem hann hefur valdið með broti sínu.

Þegar mælt er fyrir um eftirlit með þeim sem dæmdir eru skilorðsbundið fer fangelsismálastofnun með eftirlitið eða felur það öðrum sbr. 83. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Um framkvæmd eftirlits sjá skilorðseftirlit.

Senda grein