Skilorðseftirlit

Þegar mælt er fyrir um eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið eða fá náðun fer Fangelsismálastofnun með eftirlitið samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 eða felur það öðrum.

Samkvæmt 84. gr. laganna gerir Fangelsismálastofnun dómþola grein fyrir því hvað felist í því að sæta eftirliti. Dómþola ber að upplýsa Fangelsismálastofnun um hagi sína og ber að hlíta því sem fyrir hann er lagt af hálfu Fangelsismálastofnunar.

Skilorðseftirlit með þeim sem frestað hefur verið ákæru gegn

Eftirlit með ungmennum, sem ákæru hefur verið frestað gegn, fer þannig fram að þau eru boðuð í viðtal þar sem ákvörðunin um ákærufrestunina er kynnt og persónuskýrsla tekin. Forráðamaður ungmenna undir 18 ára aldri er ávallt boðaður með þeim í viðtalið.

Ungmennin eru alltaf boðuð í annað viðtal og þá án forráðamanns. Traust er byggt upp á milli ungmennanna og fulltrúa stofnunarinnar og unnið að því að fá greinargóða mynd af félagslegri stöðu þeirra og líðan. Í framhaldi af því er metið hvernig eftirliti og stuðningi við sérhvert ungmenni skuli háttað, þ.e.a.s. hvort viðkomandi er gert að mæta reglulega í viðtöl hjá Fangelsismálastofnun, fái aðstoð við að leita annað eða hvort látið sé nægja almennt eftirlit þar sem ætlast er til að ungmennið hringi inn mánaðarlega og láti vita af sér. Þessu til viðbótar má einnig nefna að hluti af eftirlitinu er reglubundin könnun á því hvort viðkomandi hefur komist í kast við lög/lögreglu.

Skilorðseftirlit með þeim sem hefur verið veitt reynslulausn

Fulltrúi Fangelsismálastofnunar, er sinnir eftirliti, heimsækir fangelsin reglulega og veitir viðtöl þeim sem þess óska. Þegar skilorðsbundin reynslulausn er veitt, birtir fulltrúi stofnunarinnar viðkomandi reynslulausnarskírteini þar sem fram koma skilyrði fyrir veitingu reynslulausnar og samþykkir hann þau með undirritun sinni. Skilyrðin sem um er að ræða eru tvískipt. Annars vegar eru almenn skilyrði og hins vegar sérskilyrði. Sjá nánari skýringar í kaflanum um skilorðsbundnar fangelsisrefsingar. Lengd skilorðstímans getur verið allt frá einu ári upp í fjögur ár, en lengdin ákvarðast af eftirstöðvum refsingar viðkomandi. 

Við undiritun reynslulausnarskírteinis er persónuskýrsla tekin af viðkomandi aðila með það fyrir augum að fá nákvæmar upplýsingar um aðsetur, vinnustað og fjölskylduhagi sem og um félagslega stöðu hans almennt.   Þá er viðkomandi boðaður í viðtal innan 2-3 vikna þar sem lagðar eru línur um hvernig eftirliti verði hagað,  þ.e.a.s. eftirlitið mótast með tilliti til hvers og eins.  Eftirlit sem á sér stað í kjölfarið getur verið þannig að viðkomandi kemur í viðtöl reglulega, hittir sálfræðing stofnunarinnar eða hefur símasamband mánaðarlega, en hið síðastnefnda er lágmarkseftirlit sem ætlast er til af öllum sem standa í þessum sporum.  Hluti af eftirlitinu er reglubundin könnun á því hvort viðkomandi hefur komist í kast við lög/lögreglu.

Skilorðseftirlit með þeim sem hefur verið veitt náðun

Fulltrúi Fangelsismálastofnunar birtir viðkomandi náðunarskírteini þar sem fram koma skilyrði fyrir veitingu skilorðsbundinnar náðunar og samþykkir hann þau með undirritun sinni.  Skilyrðin sem um er að ræða eru tvískipt.  Annars vegar eru almenn skilyrði og hins vegar sérskilyrði. Sjá nánari skýringar í kaflanum um skilorðsbundnar fangelsisrefsingar.  Lengd skilorðstímans getur verið allt frá einu ári upp í fjögur ár.

Við undiritun náðunarskírteinis er persónuskýrsla tekin af viðkomandi aðila með það fyrir augum að fá nákvæmar upplýsingar um aðsetur, vinnustað og um fjölskylduhagi sem og félagslega stöðu almennt.   Þá er viðkomandi boðaður í viðtal innan 2-3 vikna þar sem lagðar eru línur um hvernig eftirliti verði hagað,  þ.e.a.s. eftirlitið mótast með tilliti til hvers og eins.  Eftirlit sem á sér stað í kjölfarið getur verið þannig að viðkomandi kemur í viðtöl reglulega, hittir sálfræðing stofnunarinnar eða hefur símasamband mánaðarlega, en hið síðastnefnda er lágmarkseftirlit sem ætlast er til af öllum sem standa í þessum sporum. Hluti af eftirlitinu er reglubundin könnun á því hvort viðkomandi hefur komist í kast við lög/lögreglu.

 

Skilorðseftirlit með þeim sem dæmdir hafa verið skilorðsbundið þar sem frestun á fullnustu/ákvörðun refsingar er bundin sérskilyrðum skv. 57. gr. almennra hegningarlaga

Fulltrúi Fangelsismálastofnunar boðar viðkomandi í viðtal  hjá stofnuninni þar sem farið er yfir dóminn og sérskilyrði kynnt. Sjá nánari skýringar í kaflanum um skilorðsbundnar fangelsisrefsingar. Lengd skilorðstímans getur verið allt frá einu ári upp í fimm ár.  Í viðtalinu er persónuskýrsla tekin af viðkomandi með það fyrir augum að fá nákvæmar upplýsingar um aðsetur, vinnustað og fjölskylduhagi sem og félagslega stöðu almennt.   Þá er viðkomandi boðaður í viðtal innan 2-3 vikna þar sem lagðar eru línur um hvernig eftirliti verði hagað,  þ.e.a.s. eftirlitið mótast með tilliti til hvers og eins.  Eftirlit sem á sér stað í kjölfarið getur verið þannig að viðkomandi kemur í viðtöl reglulega, hittir sálfræðing stofnunarinnar eða hefur símasamband mánaðarlega, en hið síðastnefnda er lágmarkseftirlit sem ætlast er til af öllum sem standa í þessum sporum. Hluti af eftirlitinu er reglubundin könnun á því hvort viðkomandi hefur komist í kast við lög/lögreglu.

- - -

Hafi aðila verið sett skilyrði um að neyta ekki á skilorðstímanum áfengis né deyfilyfja getur Fangelsismálastofnun, með heimild í 81. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, krafist þess að dómþoli undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn skilyrðinu.

Hafi aðila verið sett skilyrði um dvöl á hæli getur Fangelsismálastofnun, með heimild í 2. mgr. 83. gr. laga nr. 15/2016, vegna breyttra ástæðna, fellt skilyrðið niður að nokkru leyti eða öllu, að fengnum tillögum forstöðumanns hælis, ef því er að skipta.

 

Senda grein