Umsóknaferli um samfélagsþjónustu vegna óskilorðsbundinna dóma

Hvernig sæki ég um?

 

Eftir að aðili hefur fengið fangelsisdóm sendir Fangelsismálastofnun honum bréf þar sem hann er boðaður til afplánunar í fangelsi. Ef refsing viðkomandi er 24 mánuðir eða minna fylgir boðunarbréfi umsókn um samfélagsþjónustu. Ef refsing er blönduð, þ.e. þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn fylgir boðunarbréfi einnig umsókn um samfélagsþjónustu. Ætli hann að sækja um samfélagsþjónustu þarf hann að skila umsókninni til Fangelsismálastofnunar. 

 

 

 

Hvert sendi ég umsóknina?


Umsóknir um samfélagsþjónustu vegna fangelsisrefsinga eiga að berast til Fangelsismálastofnunar. Hægt er að koma með umsóknina á neðangreint heimilisfang eða póstleggja umsóknina:

Fangelsismálastofnun ríkisins
Austurströnd 5
170 Seltjarnarnesi

Jafnframt er heimilt að skanna hana inn og senda rafrænt á fms@fangelsi.is

 

 

 

Ákvörðun um samfélagsþjónustu og vinnustað

 

Eftir að Fangelsismálastofnun hefur móttekið umsókn um samfélagsþjónustu er hún metin og kannað er hvort öll skilyrði eru uppfyllt. Jafnframt er farið gaumgæfilega yfir þær persónulegu upplýsingar sem eiga að koma fram á eyðublaðinu, m.a. í þeim tilgangi að átta sig á stöðu viðkomandi og finna starf við hæfi. Því er mikilvægt að umsækjandi fylli út eyðublaðið vel og vandlega.

 

 

Ef umsóknin er samþykkt er haft samband við umsækjanda og í framhaldi af því er vinnustaður ákveðinn. Síðan fær viðkomandi afhenta vinnuáætlun og samning og eru honum kynntar reglur samfélagsþjónustunnar.