Rafrænt eftirlit (ökklaband)

Hvað er rafrænt eftirlit?

Með rafrænu eftirliti er átt við afplánun utan fangelsis. Fangi dvelur á eigin heimili eða öðrum samþykktum dvalarstað og er gert að bera ökklaband til þess að hægt sé að fylgjast með ferðum hans. 

Um afplánun undir rafrænu eftirliti gilda ákveðnar reglur sem fangi verður að framfylgja. Ber fanga m.a. að vera á dvalarstað sínum á kvöldin og yfir nóttina (á virkum dögum frá kl. 23:00 – 07:00 og laugardögum og sunnudögum frá kl. 21:00 – 07:00). Þá ber honum að sinna vinnu, námi eða einhvers konar verkefnum á virkum dögum, sem fangelsismálastofnun hefur samþykkt.

Hverjir geta afplánað undir rafrænu eftirliti?


Rafrænt eftirlit er einungis í boði fyrir þá sem hlotið hafa 12 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm eða lengri. Auk þess verður fangi að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði sem tilgreind eru í 33. gr. laga um fullnustu refsinga:

  1. Að fangi teljist hæfur til að sæta rafrænu eftirliti.
  2. Að fangi hafi fastan dvalarstað sem samþykktur hefur verið af Fangelsismálastofnun.
  3. Að maki fanga, forsjáraðili, nánasti aðstandandi eða húsráðandi samþykki að hann sé undir rafrænu eftirliti á sameiginlegum dvalarstað þeirra.
  4. Að fangi stundi vinnu eða nám, sé í starfsþjálfun eða meðferð eða sinni öðrum verkefnum sem er liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný.
  5. Að fangi hafi lokið afplánun á Vernd eða í sambærilegu úrræði með fullnægjandi hætti eða verið metinn hæfur til að nýta úrræði en ekki getað það af ástæðum sem eru ekki af hans völdum. Fangi sem hefur af þessum ástæðum ekki getað nýtt sér úrræðið skal hafa verið agabrotalaus þann tíma sem hann hefði ella nýtt það.
  6. Að fangi hafi ekki rofið skilyrði rafræns eftirlits á síðastliðnum þremur árum.
  7. Að fangi eigi að jafnaði ekki ólokin mál hjá lögreglu. 

Hvaða reglur gilda um dvalarstað?


Fangelsismálastofnun þarf að samþykkja dvalarstað viðkomandi. Gerð er krafa um að aðstæður séu þannig að hægt sé að dvelja þar með góðu móti og að fangi geti sinnt helstu þörfum sínum. Séu aðrir húsráðendur á dvalarstaðnum verða þeir jafnframt að gefa stofnuninni skriflegt samþykki fyrir því að fangi dvelji þar.

Hvenær er hægt að hefja afplánun undir rafrænu eftirliti?


Rafrænt eftirlit kemur aðeins til greina sem síðasti liðurinn í afplánun fanga, áður en þeir hefja reynslulausn. Það er því ekki hægt að afplána refsingu í heild sinni á rafrænu eftirliti heldur aðeins undir lok afplánunar. 
Þegar dæmd refsing er 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi getur afplánun undir rafrænu eftirliti verið 60 dagar. Afplánun lengist svo um fimm daga fyrir hvern dæmdan mánuð og getur orðið 360 dagar hið mesta.   

Hvernig sæki ég um?


Í öllum fangelsum er að finna umsóknareyðublöð fyrir rafrænt eftirlit. Fangar fylla út eyðublaðið og skila því til fangavarða, sem sjá um að koma þeim til Fangelsismálastofnunar. Sé fangi kominn með dvalarstað og vinnu er mikilvægt að það komi fram á eyðublaðinu.

Umsóknareyðublað fyrir rafrænt eftirlit.

Hvernig er framkvæmdin?


Langflestir þeirra sem hefja afplánun undir rafrænu eftirliti afplána fyrst á áfangaheimili Verndar eða sambærilegu úrræði, sbr. skilyrði nr. 5 (liður 1.2.). Um leið og aðili fær samþykki fyrir afplánun á áfangaheimili fær hann að vita hvenær fyrirhugað sé að hann hefji afplánun undir rafrænu eftirliti. Þegar styttist í það er viðkomandi spurður út í fyrirhugaðan dvalar- og vinnustað sem þarf að liggja fyrir áður en afplánun undir rafrænu eftirliti hefst. Hafi fangi enga vinnu og er ekki í námi er sá möguleiki fyrir hendi að sinna sjálfboðavinnu sem Fangelsismálastofnun getur haft milligöngu um.

Áður en rafrænt eftirlit hefst er athugað hvort dvalarstaður uppfylli skilyrði. Starfsmaður Áfangheimilisins Verndar útskýrir fyrir viðkomandi hvernig búnaðurinn er notaður og festir á viðkomandi ökklaband. Séu fleiri aðilar með sama dvalarstað ber þeim að gefa skriflegt samþykki sitt fyrir dvalarstað viðkomandi. Þá er farið yfir þau skilyrði sem gilda á meðan á afplánun stendur sem aðila ber að samþykkja með undirskrift sinni.

Hvernig er eftirliti háttað?


Búnaðurinn sem aðila er gert að hafa heldur utan um viðveru aðila á dvalarstað sínum. Starfsmenn Fangelsismálastofnunar og Áfangaheimilisins Verndar sjá um eftirlitið þ.m.t. hvort aðilar sinni því starfi/námi sem þeir höfðu fengið samþykki fyrir.

Brjóti fangi gegn skilyrðum rafræns eftirlits er mögulegt að honum verði gert að afplána eftirstöðvar refsingar í fangelsi.

Lok afplánunar undir rafrænu eftirliti


Dómþoli skal mæta á Áfangaheimili Verndar þann dag sem hann lýkur afplánun undir rafrænu eftirliti til að láta taka af sér ökklabandið, hann má ekki gera það sjálfur. Ef dómþoli er úti á landi skal hann, í samráði við Vernd, mæta á næstu lögreglustöð til að láta taka af sér ökklabandið og skila stjórnstöð.