Embætti deildarstjóra hjá Fangelsismálastofnun ríkisins - Fangelsið Hólmsheiði

Hjá Fangelsismálastofnun ríkisins er laust til umsóknar embætti deildarstjóra við Fangelsið Hólmsheiði. Gert er ráð fyrir því að forstjóri Fangelsismálastofnunar skipi í embættið til fimm ára frá og með 1. janúar 2026.

Um nýtt starf er að ræða sem er liður í umbótum og endurskipulagningu á starfsstigum innan fangelsanna. Sá sem hlýtur skipun í embætti mun þurfa að sækja stjórnunarnámskeið á vegum Fangelsismálastofnunar ríkisins eða námskeið sem stofnunin ákveður að millistjórnendur þurfi að sækja.   

Helstu upplýsingar um vinnustaðinn og starfið

Fangelsismálastofnun ríkisins heyrir undir dómsmálaráðuneytið. Stofnunin fer með yfirstjórn fangelsismála, m.a. umsjón með rekstri fangelsa og tryggir að fullnusta refsinga fari fram með öruggum og skilvirkum hætti í samræmi við lög um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Stofnunin leggur áherslu á vellíðan í starfi og jákvæðan starfsanda. Hjá stofnuninni starfa alls um 160 starfsmenn, flestir fangaverðir, á fimm mismunandi starfsstöðvum, fjórum fangelsum og skrifstofu.

Í Fangelsinu Hólmsheiði starfa tæplega 50 starfsmenn, flestir fangaverðir, og heyrir deildarstjóri undir forstöðumann Fangelsisins Hólmsheiði. 

Helstu verkefni og ábyrgð

Samkvæmt innri reglum um starfsstig innan fangelsa gegnir deildarstjóri hlutverki millistjórnanda með faglega og skipulagslega ábyrgð yfir vöktum og verkefnum. 

Meginverksvið og ábyrgð deildarstjóra er m.a. eftirfarandi: 

  • Umsjón með daglegri stjórn fangelsis undir stjórn forstöðumanns. 
  • Samhæfni daglegra starfa ásamt því að tryggja samræmingu milli vakta og deilda.
  • Sér um að mönnunarþörf sé uppfyllt og framfylgir að farið sé eftir verkferlum.
  • Þátttaka í framkvæmd eftirlits með fangavörslu og öryggisbúnaði.
  • Yfirumsjón með eftirfylgni verklagsreglna og tryggir viðunandi framkvæmd leita.
  • Ábyrgð á viðeigandi skráningu og skýrslugerð.
  • Stjórnendaeftirlit með lægri starfsstigum. 
  • Sinnir öðrum verkefnum sem honum kunna að vera falin af forstöðumanni. 

Hæfi

Til að hljóta skipun í embætti fangavarðar þarf viðkomandi að hafa lokið námi í fangavarðafræðum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um fullnustu refsinga. Leggja má að jöfnu sambærilegt nám sem viðurkennt er af Fangelsismálastofnun ríkisins að fenginni umsögn stjórnar Fangavarðafélags Íslands. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. innri reglna um starfsstig innan fangelsa skal umsækjandi hafa gegnt starfi fangavarðar í að minnsta kosti fjögur ár frá útskrift til að hljóta setningu eða skipun í starf deildarstjóra.     

Hæfnikröfur

Leitað er eftir einstaklingi með eftirfarandi menntun, reynslu og hæfni

Menntun

  • Nám í fangavarðafræðum skv. hæfiskröfum. 
  • Viðbótarmenntun sem nýtist í starfi er kostur. 

Reynsla

  • Starfsreynsla sem nýtist í starfi. 
  • Farsæl reynsla af stjórnun. 

Persónulegir eiginleikar/hæfni

  • Forystuhæfni til að leiða fólk, stjórna verkefnum og taka ákvarðanir. 
  • Frumkvæði, drifkraftur og metnaður. 
  • Jákvætt, lausnamiðað og umbótasinnað hugarfar. 
  • Mjög góð samskiptafærni og vilji til þess að vinna með fólki.
  • Mjög góð skipulagsfærni og nákvæmni í vinnubrögðum.
  • Góð færni í íslensku og ensku í ræðu og riti. 

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Sameyki hafa gert.

Um dagvinnu er að ræða. Sá sem skipaður er í embættið nýtur réttinda og ber skyldur skv. lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

Tekið er mið af jafnréttisstefnu Fangelsismálastofnunar ríkisins við ráðningar. Fangelsismálastofnun hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt Jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012.

Umsóknum skal skilað inn á vef Starfatorgs. Með umsókn skal fylgja starfsferilskrá, afrit af prófskírteinum og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni umsækjanda sem nýtist til að sinna starfinu í samræmi við þær hæfniskröfur sem fram koma í auglýsingu. 

Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur verða ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Athygli skal vakin á því að áður en að skipun deildarstjóra kemur skal umsækjandi, að fengnu samþykki hans, undirgangast bakgrunnsskoðun skv. 10. gr. laga um fullnustu refsinga. Í því felst upplýsingaöflun aftur í tímann m.a. úr sakaskrá og skrám lögreglu. 

Starfshlutfall er 100 %
Umsóknarfrestur er til og með 14.11.2025

Nánari upplýsingar veitir

Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður - HalldorValur@fangelsi.is - 520-5060


FMS Fangelsið Hólmsheiði
Nesjavallaleið 9
110 Reykjavík


Sækja um starf Til baka