Heimsóknir

Fangi í afplánun getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans. 

Hvað þarf fangi að gera?


Fangi þarf að skila heimsóknarlista á varðstofu með þeim einstaklingum sem hann óskar eftir að fá í heimsókn. Afgreiðsla á heimsóknarlista getur tekið allt að 2 vikur. 
Eftir að heimsóknarlisti er samþykktur sækir fangi um að fá heimsóknartíma á varðstofu fangelsis. Aðeins samþykktir einstaklingar á heimsóknarlista mega koma í heimsókn í fangelsið.


Hvað þarf heimsóknargestur að gera?


Fangi gerir heimsóknarlista sem hann afhendir varðstjóra. Fangi upplýsir heimsóknargesti að þeir séu á heimsóknarlista hans. Í kjölfarið þurfa heimsóknargestir að senda tölvupóst á netfangið heimsokn@fangelsi.is eða heimsoknir@fangelsi.is og staðfesta að þeir heimili Fangelsismálastofnun að kanna bakgrunn þeirra og sakaferil hjá lögreglu. 

Skilyrði og/eða bann


Forstöðumaður fangelsis getur sett skilyrði á heimsóknir, bannað ákveðnum aðilum að koma í heimsóknir og rofið heimsóknir telji hann það nauðsynlegt til að:

 • Viðhalda ró, góðri reglu og öryggi í fangelsi.
 • Til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. 

Þau skilyrði sem forstöðumaður getur sett á heimsóknir eru eftirfarandi:

 • Heimsókn fer fram undir eftirliti starfsmanns.
 • Heimsókn fer fram án líkamlegrar snertingar (glerheimsókn).
 • Heimsókn fer fram í öðrum vistarverum fangelsis.

Heimsóknir barna


Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um heimsóknir þess í fangelsi. Ákvarðanir um heimsóknir barna í fangelsi skulu því ávallt teknar út frá hagsmunum barna en ekki fanganna. Synja skal fanga um heimsókn barns ef það telst ekki mikilvægt fyrir barnið að koma í heimsókn, svo sem:

 • Þegar barnið tengist fanganum ekki fjölskylduböndum.
 • Þegar engar aðrar ástæður mæla með heimsókninni. 
Forstöðumanni fangelsis ber að skipuleggja aðstæður þannig að börn geti komið með í heimsóknir og að þeim sé sýnd nærgætni. Rjúfa skal heimsókn þar sem börn eru ef talið er að þær brjóti gegn hagsmunum þeirra.

Til að unnt sé að samþykkja að barn komi í heimsókn í fangelsi þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

 • Fangi skal að jafnaði hafa verið agabrotalaus í tvo mánuði áður en heimsókn fer fram.
 • Fangi skal hafa stundað vinnu, nám eða verið á meðferðargangi síðasta mánuðinn enda standi honum slíkt til boða í fangelsinu.
 • Fangi skal teljast hæfur að öðru leyti til að fá heimsókn frá barni.  
Heimilt er að gera undantekningu frá þessu ef fanginn er nýkominn í fangelsi og telst hæfur til að fá barn í heimsókn.

Ekki skal heimila heimsókn frá barni í fangelsi nema að undangengnu áliti félagsráðgjafa Fangelsismálastofnunar. Jafnframt þarf forsjáraðili barns að veita fangelsisyfirvöldum heimild til að kanna hjá viðkomandi barnavernd hvort mál barnsins sé í vinnslu þar. 

Ef opið mál er til afgreiðslu hjá barnavernd skal ekki heimila heimsókn nema:

 • Fyrir liggi afstaða barnaverndar fyrir því og fanginn er að öðru leyti hæfur til að fá barn í heimsókn. 
Jafnframt skal synja um heimsókn ef foreldrar veita ekki heimild til könnunar hjá barnavernd.

Áður en ákvörðun um heimsókn barns er tekin þarf að liggja fyrir forsjárvottorð frá Þjóðskrá Íslands. Heimsóknir barna skulu fara fram í fylgd forsjáraðila eða annars aðstandanda, enda liggi fyrir skriflegt samþykki forsjáraðila fyrir því. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns þarf samþykki þeirra beggja fyrir heimsókn. Ef um heimsókn barna í lokað fangelsi er að ræða skal heimsóknin eingöngu fara fram í fylgd þessara aðila. Heimilt er að leyfa fleirum en framangreindum að koma með barni í heimsókn í opið fangelsi enda mæli ekki aðrar ástæður gegn slíkri heimsókn.

Ef fangi sem afplánar refsingu fyrir kynferðisbrot gegn barni, fangi á öryggisdeild eða fangi sem afplánar fyrir heimilisofbeldi sækir um heimsókn frá barni skal fangelsið upplýsa félagsráðgjafa Fangelsismálastofnunar um það sem síðan skal senda viðkomandi barnavernd tilkynningu. Það sama gildir ef ástæða er til að ætla að barn sem kemur í heimsókn í fangelsi búi við óviðunandi uppeldisaðstæður eða verði fyrir áreitni eða ofbeldi. Einnig er skylt að gera barnavernd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða. Ef leyfa á slíka heimsókn skal umsögn barnaverndar fylgja með þar sem segir að það sé barninu fyrir bestu að koma í heimsókn til fangans. Synja ber um heimsókn ef slík umsögn liggur ekki fyrir.        

Fangi skal að jafnaði ekki fá heimsókn frá barni í þrjá mánuði ef heimsókn, þar sem barn er með í för, er misnotuð með einhverjum hætti, svo sem:

 • Ef fangi eða gestur hans reynir að smygla inn fíkniefnum, lyfjum eða öðrum hlutum sem bannað er að vera með í fangelsi. 
Heimsókn frá barni skal ekki heimiluð á ný nema fyrir liggi álit félagsráðgjafa Fangelsismálastofnunar um hana. Þá þarf fanginn jafnframt að uppfylla öll önnur skilyrði þess að fá barn á ný í heimsókn. Slík heimsókn skal fara fram undir eftirliti fangavarða í a.m.k. eitt skipti áður en unnt er að heimila eftirlitslausa heimsókn á ný.

 

 • Áður en barn kemur í heimsókn í fangelsi þarf að liggja fyrir forsjárvottorð. Forsjárvottorð má nálgast hjá Þjóðskrá. Forsjárvottorð er annað hvort sent á viðeigandi fangelsi eða á skrifstofu Fangelsismálastofnunar, Austurströnd 5, 170 Seltjarnarnesi.
 • Ef forsjáraðili kemur ekki með barni sínu í heimsókn í fangelsi þarf hann að skrifa undir samþykki fyrir því að aðrir aðstandendur barnsins komi með það. Yfirlýsing um samþykki forsjáraðila sendist annað hvort á viðeigandi fangelsi eða á skrifstofu Fangelsismálastofnunar, Austurströnd 5, 170 Seltjarnarnesi. 
 • Ef forsjáraðilar barnsins eru tveir þarf að liggja fyrir samþykki beggja foreldra fyrir heimsókn barnsins.

 1. Yfirlýsing um samþykki forsjáraðila fyrir heimsókn barns í fylgd annarra 
 2. Upplýst samþykki forsjáraðili fyrir samskiptum félagsráðgjafa fangelsismálastofnunar við barnavernd 
 3. Bæklingur um heimsóknir barna í fangelsi