Heimsóknir

Fangi í afplánun getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans. 

Hvað þarf fangi að gera?


Fangi þarf að skila heimsóknarlista á varðstofu með nöfnum þeirra einstaklinga sem hann óskar eftir að fá í heimsókn. Afgreiðsla á heimsóknarlista getur tekið allt að 2 vikur. 
Eftir að heimsóknarlisti er samþykktur sækir fangi um að fá heimsóknartíma á varðstofu fangelsis. Aðeins samþykktir einstaklingar á heimsóknarlista mega koma í heimsókn í fangelsið.


Hvað þarf heimsóknargestur að gera?


Fangi gerir heimsóknarlista sem hann afhendir varðstjóra. Fangi upplýsir heimsóknargesti að þeir séu á heimsóknarlista hans. Í kjölfarið þurfa heimsóknargestir að senda tölvupóst á netfangið heimsokn@fangelsi.is eða heimsoknir@fangelsi.is og staðfesta að þeir heimili Fangelsismálastofnun að kanna bakgrunn þeirra og sakaferil hjá lögreglu. 

Skilyrði og/eða bann


Forstöðumaður fangelsis getur sett skilyrði á heimsóknir, bannað ákveðnum aðilum að koma í heimsóknir og rofið heimsóknir telji hann það nauðsynlegt til að:

  • Viðhalda ró, góðri reglu og öryggi í fangelsi.
  • Til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. 

Þau skilyrði sem forstöðumaður getur sett á heimsóknir eru eftirfarandi:

  • Heimsókn fer fram undir eftirliti starfsmanns.
  • Heimsókn fer fram án líkamlegrar snertingar (glerheimsókn).
  • Heimsókn fer fram í öðrum vistarverum fangelsis.

Heimsóknir barna


Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um heimsóknir þess í fangelsi. Hagsmunir barns vega því ávallt þyngra en hagsmunir fangans. 

Skilyrði þess að samþykkja megi heimsókn frá barni:

1. Að fanginn sem óskar eftir heimsókninni hafi verið agabrotalaus í einn mánuð áður en heimsókn fer fram.

2. Að fanginn hafi stundað nám, vinnu eða verið á meðferðargangi síðasta mánuðinn enda hafi slíkt staðið honum til boða í fangelsinu eða verið í annarri virkni sem fangelsið metur sambærilega.

3. Að fanginn teljist hæfur að öðru leyti til að fá heimsókn frá barni.

4. Að fyrir liggi forsjárvottorð frá Þjóðskrá Íslands. Ef langur tími er liðinn frá útgáfu forsjárvottorðs eða grunur er um að breyting hafi orðið á forsjánni er heimilt að krefjast nýs vottorðs.

5. Að fyrir liggi upplýst samþykki forsjáraðila um samskipti við barnavernd þar sem kannað er hvort barn sé vistað utan heimilis á þeirra vegum.

6. Að félagsráðgjafi hjá Fangelsismálastofnun hafi rætt við báða forsjáraðila barnsins um fyrirhugaða heimsókn. Sé annar forsjáraðilinn sá sem óskar eftir heimsókninni er heimilt að víkja frá skilyrðinu varðandi hann.

Viðbótarskilyrði í sérstökum tilvikum:

7. Afpláni fanginn refsingu fyrir kynferðisbrot gegn barni eða heimilisofbeldi gegn barni eða foreldri þess sæti gæsluvarðhaldi grunaður um slík brot eða er vistaður á öryggisdeild skal ekki heimila heimsókn frá barni nema sérstakar ástæður mæli með því út frá hagsmunum barnsins að mati fagaðila, s.s. barnaverndar.

8. Hafi heimsókn þar sem barn er með í för verið misnotuð með einhverjum hætti, s.s. ef fangi eða gestur hans hafa reynt að smygla inn fíkniefnum, lyfjum eða öðrum hlutum sem bannað er að vera með í fangelsi, skal fanginn að jafnaði ekki fá heimsókn frá barni í þrjá mánuði frá atvikinu. Fangelsi skal þegar í stað þegar slíkt tilvik kemur upp, í samvinnu við félagsráðgjafa Fangelsismálastofnunar, tilkynna viðkomandi barnavernd um misnotkunina á heimsókn. Þá skal a.m.k. fyrsta heimsókn eftir slíkt atvik fara fram undir eftirliti fangavarða. Enn fremur skal félagsráðgjafi ræða við fangann áður en ákvörðun um heimsókn að nýju er tekin.

Séu framangreind skilyrði ekki uppfyllt ber að jafnaði að synja um heimsóknina. Þó er heimilt er að gera undantekningu frá 1. og 2. tölul. ef fanginn er nýkominn í fangelsi og uppfyllir önnur skilyrði ákvæðisins.

Ef ástæða er til að ætla að barn sem kemur í heimsókn í fangelsi búi við óviðunandi uppeldisaðstæðu eða verði fyrir áreitni eða ofbeldi skal fangelsið tilkynna viðkomandi barnavernd um málið. Einnig er skylt að gera barnavernd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða.

Hvað þurfa forsjáraðilar að gera?

Skila þarf inn viðeigandi gögnum varðandi heimsókn barns áður en tekin er afstaða til þess hvort að barn fari á heimsóknarlista fanga.

Áður en barn kemur í heimsókn í fangelsi þarf að liggja fyrir forsjárvottorð. Forsjárvottorð má nálgast hjá Þjóðskrá. Forsjárvottorð er annað hvort sent á viðeigandi fangelsi eða á skrifstofu Fangelsismálastofnunar, Austurströnd 5, 170 Seltjarnarnesi.

Ef forsjáraðilar barnsins eru tveir þarf að liggja fyrir samþykki beggja foreldra fyrir heimsókn barnsins.

Ef forsjáraðili kemur ekki sjálfur með barni sínu í heimsókn í fangelsi þarf hann að skrifa undir samþykki fyrir því að aðrir aðstandendur barnsins komi með það. Yfirlýsing um samþykki forsjáraðila þarf að skila inn á skrifstofu Fangelsismálastofnunar, Austurströnd 5, 170 Seltjarnarnesi, og framvísa þarf persónuskilríkjum. 

Skila þarf inn upplýstu samþykki um samskipti Fangelsismálastofnunar við barnavernd þar sem kanna þarf hvort að viðkomandi barn sé vistað utan heimilis á þeirra vegum.

Hvaða gögnum þarf að skila og hvert?

  1. Forsjárvottorð frá Þjóðskrá Íslands .
  2. Upplýst samþykki forsjáraðila fyrir samskiptum félagsráðgjafa fangelsismálastofnunar við barnavernd.
  3. Yfirlýsing um samþykki forsjáraðila fyrir heimsókn barns í fylgd annarra (ef við á).