Áfangaheimilið Vernd

Laugateigi 19
105 Reykjavík
562 3003
www.vernd.is

vernd@fangelsi.is

Í hverju felst afplánun á áfangaheimili Verndar?


Afplánun á áfangaheimili, skv. 31. gr. laga um fullnustu refsinga, felur í sér afplánun hluta fangelsisrefsingar utan fangelsis, þar sem viðkomandi dvelur á sérstakri stofnun eða heimili og er þar undir eftirliti. Áfangaheimili Verndar er það áfangaheimili sem Fangelsismálastofnun hefur gert samkomulag við og langflestir dómþolar sem uppfylla skilyrði afplána á. Einstaklingur sem þar dvelur skal dvelja á áfangaheimilinu milli kl. 23:00 – 07:00 alla daga vikunnar, þar að auki skal hann vera á heimilinu milli kl. 18:00 - 19:00 mánudaga - föstudaga og skal hann fylgja öllum húsreglum sem þar gilda. Jafnframt ber þeim sem þar búa að stunda vinnu, nám, starfsþjálfun eða meðferð sem forsvarsmenn Verndar hafa samþykkt.

Hvernig sæki ég um afplánun á Vernd?


Í öllum fangelsum er að finna umsóknareyðublað fyrir afplánun á Vernd sem fylla þarf út og skila til fangavarða, sem sjá um að koma þeim til Fangelsismálastofnunar. Mikilvægt er að fylla umsóknina eins vel og ítarlega út og hægt er. 

Umsóknareyðublað fyrir afplánun á Vernd 

Hverjir geta afplánað á áfangaheimili Verndar?


Þeir sem afplána fangelsisrefsingu eða vararefsingu fésekta geta sótt um að afplána hluta refsingar á Áfangaheimili Verndar. Skilyrði þess að unnt sé að fallast á afplánun á Vernd eru:

  1. Að aðili hafi ekki gerst sekur um agabrot í refsivistinni síðustu þrjá mánuðina og að hegðun hans hafi að öðru leyti verið til fyrirmyndar.
  2. Strjúki aðili úr gæsluvarðhaldi eða afplánun í fangelsi skulu líða a.m.k. tvö ár þar til hann telst hæfur til dvalar á Vernd.
  3. Að í refsivörslukerfinu sé ekki til meðferðar mál þar sem aðili er kærður fyrir refsiverðan verknað.
  4. Að aðila hafi að jafnaði ekki verið vikið af áfangaheimilinu í núverandi afplánun.
  5. Að aðili teljist hæfur til dvalar á áfangaheimilinu.
  6. Að ekki mælist áfengi í öndunarsýni eða ólögleg ávana- eða fíkniefni greinist í þvagprufu aðila sem hann afhendir áður en til vistunar á áfangaheimilinu kemur.

Víkja má frá skilyrðum a-, b- og c-liðar ef mjög sérstakar ástæður mæla með því.

Víkja má frá skilyrðum d-liðar hafi hegðun aðila verið með ágætum í a.m.k. þrjá mánuði eftir komu í fangelsið á ný, hann þegið viðeigandi meðferð í afplánun og tekist á við vímuefnavanda sinn, hafi hann verið til staðar.

Hvenær er hægt að hefja afplánun á áfangaheimili og hversu lengi?


Áður en aðili getur hafið afplánun á Vernd ber honum að hafa afplánað a.m.k. 1/3 hluta refsingar í fangelsi. Þá skal dvalartími á áfangaheimilinu að jafnaði ekki vera styttri en þrjár vikur.  

Þegar dæmd refsing er eitt ár eða minna getur dvalartími á áfangaheimilinu orðið allt að 3 mánuðir. Þegar dæmd refsing er yfir eitt ár lengist dvöl á áfangaheimilinu um 2,5 daga fyrir hvern dæmdan mánuð og getur orðið  7 mánuðir við 5 ára fangelsisrefsingu. Eftir það lengist dvölin um 5 daga fyrir hvern dæmdan mánuð og getur orðið að hámarki 18 mánuðir þegar dæmd refsing er 10 ára og 6 mánaða fangelsi.

Frá fangelsi á Vernd


Tekið er á móti nýjum einstaklingum á Vernd á mánudögum og fimmtudögum kl. 18:00. Við komu á Vernd er tekið á móti viðkomandi af forsvarsmanni Verndar og honum kynntar húsreglur og vísað til herbergis. Fangi kemur sér sjálfur úr fangelsi á Vernd og fær til þess nokkrar klukkustundir. 

Eftirlit á Vernd


Eftirlit á áfangaheimilinu er í höndum starfsmanna Verndar. Jafnframt eru eftirlitsaðilar á vegum Fangelsismálastofnunar sem fylgjast með því að einstaklingar sinni þeirri vinnu eða námi sem þeir hafa fengið samþykki fyrir og ber að sinna á öllum virkum dögum.

Reglur Verndar 


Reglur Verndar

Heimilisreglur á Vernd

Má afplána á öðru áfangaheimili en Vernd?


Fangelsismálastofnun hefur í samráði við önnur áfangaheimli heimilað, í sérstökum tilfellum, afplánun á öðrum áfangaheimlum. Fangelsismálastofnun gerir kröfu um eftirlit á vegum áfangaheimilis. Vinsamlegast hafið samband við félagsráðgjafa fangelsismálastofnunar sé óskað frekari upplýsinga, netföng og símanúmer eru aðgengileg hér á vefnum.