Fangelsið Hólmsheiði
Nesjavallaleið 9
161 Reykjavík
Sími: 520 5060
Netfang: vardstjorihh@fangelsi.is
Sjá kort
Forstöðumaður fangelsisins er Halldór Valur Pálsson. Hann er einnig forstöðumaður Fangelsisins Litla-Hrauni og Sogni.
Fangelsið Hólmsheiði var formlega opnað 10. júní 2016. Fangelsið er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun styttri fangelsisrefsinga og vararefsinga.
Í fangelsinu starfa að jafnaði um 30 fangaverðir á þrískiptum vöktum, dag-, kvöld- og næturvöktum. Þar af eru tveir varðstjórar sem eingöngu ganga dagvaktir. Til viðbótar eru verkstjórar í dagvinnu sem stjórna vinnu og hafa umsjón með verslun og öðrum verkefnum.
Fangelsið skiptist í átta deildir; almennar deildir, gæsluvarðhaldsdeildir og kvennadeildir. Í fangelsinu eru 52 afplánunarpláss og fjögur gæsluvarðhaldspláss fyrir einangrun. Hægt er að skipta deildum upp eftir þörfum. Mjög góð aðstaða er í fangelsinu fyrir útivist fanga, líkamsrækt og tómstundastarfsemi.
Vinna fanga
Verkefni í fangavinnu eru eftirfarandi:
- Hugmyndavinna, hönnun og framleiðsla fyrir Fangaverk
- Störf við ýmsar samsetningar og pökkun
- Útivinna á lóð
- Viðhaldsvinna
- Þrif og matseld á deildum
- Þrif á sameiginlegum rýmum
- Afgreiðsla og áfyllingar í verslun
Nám
Í fangelsinu geta fangar stundað fjarnám undir handleiðslu námsráðgjafa.
Náms- og starfsráðgjöf
Meginmarkmið náms- og starfsráðgjafar er að efla vitund einstaklinga um hæfileika sína, viðhorf og áhuga þannig að þeir geti notið sín í námi og starfi. Ráðgjöfinni er ætlað að auðvelda fólki, á hvaða aldri sem er og við hvaða aðstæður sem er, að átta sig á styrkleikum sínum, færni og áhuga til að eiga hægara með að ákveða stefnu í námi og starfi. Allir fangar geta leitað til náms - og starfsráðgjafa allan afplánunartímann í netfangið: klara@fsu.is
Meðferðarstarf
AA samtökin eru með reglulega fundi í fangelsinu tvisvar í viku fyrir karl- og kvenfanga.
Hönnunarsaga
Arkís arkitektar ehf. hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni en niðurstöður hennar voru kynntar snemmsumars 2012. Höfundar tillögunnar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar.
Efnt var til samkeppni um listskreytingar og hlutu fyrstu verðlaun þær Anna Hallin og Olga S. Bergmann. Tillaga þeirra heitir Arboretum - trjásafn og er margþætt listaverk, þyrping 9 tegunda trjáa og "fuglahótel" með tilheyrandi fuglahúsum sem unnin eru í samvinnu við tréverkstæðið á Litla-Hrauni. Hægt er að fylgjast með fuglalífinu í sjónvarpi í fangelsinu.
Framkvæmdir
Fyrsta skóflustungan var tekin 4. apríl 2013. Jarðvegsframkvæmdir hófust með fyrstu skóflustungunni í kjölfar útboðs og síðar um vorið var bygging fangelsisins boðin út. Samið var við ÍAV um byggingu hússins en fyrirtækið átti lægsta tilboð af þremur sem bárust.
Ákveðið var að fangelsið yrði vottað samkvæmt alþjóðlega umhverfisvotturnarkerfinu BREEAM og fellur það sérstaklega vel að öllum 10 meginreglum svokallaðs Nordic Built sáttmála. Með þeirri hugmyndafræði er við sköpun á manngerðu umhverfi leitast við að auka lífsgæði, nýta sjálfbærni, staðbundnar auðlindir og byggja á norrænni hönnunarhefð eins og hún gerist best.