Samfélagsþjónusta

Samfélagsþjónusta felur í sér tímabundið, ólaunað starf sem getur komið í stað fangelsisvistunar, bæði vegna óskilorðsbundinna refsinga og vararefsinga fésekta. Ákvörðun um samfélagsþjónustu og framkvæmd hennar er í höndum Fangelsismálastofnunar.

Hvaða dóma er hægt að afplána með samfélagsþjónustu?

Þeir sem dæmdir hafa verið í allt að 24 mánaða óskilorðsbundið fangelsi geta afplánað refsingu með samfélagsþjónustu uppfylli þeir öll skilyrði. 

Ef hluti refsingarinnar er skilorðsbundinn kemur samfélagsþjónusta til greina þó að heildarrefsing sé lengri en 24 mánuðir. 

Ef um er að ræða fleiri en einn dóm má samanlögð refsing ekki vera lengri en 24 mánuðir. 

Umsóknareyðublað um samfélagsþjónustu í stað óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar

Upplýsingaskjal um samfélagsþjónustu í stað óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga

Nánar um ferli umsókna vegna óskilorðsbundinna dóma 

Er hægt að afplána vararefsingar fésekta með samfélagsþjónustu?


Þeir aðilar sem ber að afplána vararefsingu fésekta, sem er 100.000 kr. eða hærri, eiga möguleika á því að afplána refsingu með samfélagsþjónustu. Slíkt kemur þó ekki til greina fyrr en innheimtuaðili hefur metið sem svo að frekari innheimtuaðgerðir muni ekki skila árangri. Innheimtuaðili sekta og sakarkostnaðar er Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra.

Upplýsingaskjal um samfélagsþjónustu í stað vararefsinga


Nánar um ferli umsókna vegna fésekta

Frekari skilyrði fyrir afplánun með samfélagsþjónustu

Til að aðilar geti afplánað refsingu sína með samfélagsþjónustu verða þeir að uppfylla þau skilyrði sem tilgreind eru í lögum. Þau eru eftirfarandi:

  1. Fangelsisrefsing:  Að dómþoli hafi óskað eftir því skriflega við Fangelsismálastofnun eigi síðar en viku áður en afplánun átti að hefjast samkvæmt boðunarbréfi.  Vararefsing:  Að dómþoli hafi skilað inn umsókn ekki síðar en 7 dögum eftir birtingu ákvörðunar um afplánun vararefsingar fésekta.
  2. Að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað.
  3. Að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu. Áður en metið er hvort dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu skal fara fram athugun á persónulegum högum hans. Mæti dómþoli ekki til viðtals í þessu skyni skal almennt synja beiðni um samfélagsþjónustu.
  4. Að dómþoli afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi. 

Get ég verið í vinnu eða námi með samfélagsþjónustu?


Reynt er að finna vinnustað við hæfi og miðað er við að samfélagsþjónusta skarist ekki við atvinnu eða nám aðila. Þannig ættu allir að geta sinnt atvinnu sinni eða námi samhliða samfélagsþjónustu.

Hversu lengi er ég í samfélagsþjónustu?


Þegar aðili hefur undirritað samfélagsþjónustuskírteini telst samfélagsþjónustan hafin og er aðili þá bundinn af reglum hennar. Lengd samfélagsþjónustu fer eftir lengd refsingar, minnst 40 klukkustundir en mest 960 klukkustundir og dreifist á 2 – 14 mánuði. Athuga skal að ekki er hægt að vinna samfélagsþjónustu á skemmri tíma en gefið er upp í upphafi.

Eftirlit í samfélagsþjónustu?


Fulltrúar á vegum Fangelsismálastofnunar hafa eftirlit með samfélagsþjónum og heimsækja vinnustaði reglulega.

Rof á skilyrðum samfélagsþjónustu / Brot á reglum samfélagsþjónustu


Ef aðili brýtur gegn skilyrðum samfélagsþjónustu getur það varðað því að aðila verði gert að afplána eftirstöðvar refsinga refsingar í fangelsi. Þegar meint brot er ekki alvarlegt eða ítrekað skal veita áminningu áður en ákveðið er að fangelsisrefsing skuli afplánuð.