Dómar

Dómarar geta kveðið upp nokkrar tegundir af dómum. Mikilvægt er að greina á milli tegunda dóma þar sem ólíkir afplánunarmöguleikar eru eftir tegund og lengd refsingar. Nánar er fjallað um mismunandi dóma hér að neðan. Hlutverk Fangelsismálastofnunar er m.a. að fullnusta þær refsingar sem þegar hafa verið dæmdar. 

Nánari upplýsingar um boðun í fangelsi og önnur úrræði vegna dóma má sjá hér á vefnum.

Óskilorðsbundinn dómur

Refsidómur þar sem ákærði er dæmdur til fangelsisvistar sem ekki er skilorðsbundin, þ.e. hann þarf að sæta fangelsisvist.

Hægt er að dæma menn í fangelsi, minnst 30 daga fangelsi og mest ævilangt fangelsi.

  • Að uppfylltum skilyrðum er hægt að afplána allt að samanlagt 12 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu
  • Hægt er að sækja um reynslulausn þegar afplánaður er óskilorðsbundinn dómur, ákvörðun um reynslulausn er ekki tekin fyrr en í fyrsta lagi þegar afplánun er hafin. 
    Upplýsingar um reynslulausn.

Skilorðsbundinn dómur

Refsidómur þar sem ákvörðun refsingar eða fullnustu refsingar er frestað um tiltekinn tíma með því skilyrði að sakborningur brjóti ekki af sér á þeim tíma. Hægt er að setja mönnum frekari skilyrði, svo sem að þeir hlíti umsjón stofnunar, svo sem Fangelsismálastofnunar, að þeir neyti ekki áfengis eða deyfilyfja o.fl. 

  • Ákveða má í dómi að fresta ákvörðun um refsingu eða fullnustu refsingar í tiltekinn tíma.
  • Skilorðstími er frá 1 ári til 5 ára en hann er yfirleitt 2-3 ár.
  • Skilorðsbundnir dómar eru alltaf bundnir því skilyrði að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á skilorðstímanum.
  • Heimilt er að setja frekari skilyrði, svo sem um umsjón, bann við neyslu áfengis og deyfilyfja, dvalarstað og umgengni við aðra menn. 

Skilorðsbundinn og óskilorðsbundinn dómur (blandaður dómur)

Refsidómur þar sem ákærði er dæmdur bæði í óskilorðsbundið fangelsi og í skilorðsbundið fangelsi. Sá hluti refsitímans sem er skilorðsbundinn er frestað í tiltekinn tíma með því skilyrði að dómþoli brjóti ekki af sér á þeim tíma.  

  • Þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn getur dómþoli, að uppfylltum skilyrðum, afplánað óskilorðsbundna hlutann  með samfélagsþjónustu þó að heildarrefsing sé lengri en 24 mánuðir.  Dæmi um slíkan dóm væri 3 mánaða óskilorðsbundið fangelsi og 22 mánuðir skilorðsbundnir. 
  • Einstaklingar sem koma til afplánunar vegna blandaðs dóms fá ekki reynslulausn og þurfa því að afplána óskilorðsbundna hlutann að fullu. 

Fésekt - Vararefsing


Fésekt er önnur af tveimur tegundum refsinga (hin er fangelsisrefsing) þar sem manni er gert að greiða sekt fyrir tiltekinn refsiverðan verknað. Vararefsing er refsing sem þarf að afplána ef sektin er ekki greidd. 

Ákærufrestun (ekki dómur)


Útgáfu ákæru er frestað um tiltekinn tíma. Skilyrði er að aðili hafi játað brot sitt sem er ekki svo alvarlegt að almannahagsmunir krefjist þess að gefin verði út ákæra. Algengast er að ákærufrestun sé beitt ef brotamaður var 15-21 árs þegar brotið var framið.